Heimasíða Golfkl. Vestarr, stofn. 1995 s: 438-6520

Færslur: 2013 Júní

30.06.2013 08:41

FRÉTTIR 30. júní 2013

FRÉTTIR af Bárarvelli 30. júní 2013
Her er hið fegursta veður og völlurinn fallegur. Hitinn er kominn í 12 stig og smá gjóla. Sjá má myndir sem teknar voru í morgun á facebooksíðunum: Golfklúbburinn Vestarr og Guðmundur Gíslason.

27.06.2013 17:10

FRÉTTIR 27. júní 2013

Í dag voru brautir og flatir ásamt röffi slegið fyrir mótið í dag.


Mótið hafið

Þá er mót nr. 2 hafið í mótaröð golfklúbbsins og eru 10 keppendur með Guðna Hall í fararbroddi. Sumir höfðu á orði er þeir sáu Guðna mæta, að það þýddi ekkert að vera með því Guðni ynni orðið öll mót. Þeir létu sig samt hafa það að vera með og Gunni Ragga sagðist ætla að vinna núna.

27.06.2013 10:45

Ferðasaga

Heyrðu vinur, höfum við ekki sést áður?
Í ýmsu getur maður lent er maður er að vasast í kringum íþróttir. Þannig var að í upphafi golfvertíðar tók formaður klúbbsins okkur vallarstarfsmenn með í kynnisferð til Hveragerðis, tek þó fram að ekki var það á heilsuhælið. Eins og gerist þegar sveitarvargurinn bregður sér til Reykjavíkur sem er nauðsynlegur viðkomustaður þarf að bregða sér í búðir. Er við höfðum komið í 3 verslanir hafði ég þekkt einhvern þar. Er við komum svo í þá fjórðu þekkti ég engan og þótti ferðafélögum mínum það skrítið. Jæja við héldum svo eins og leið liggur til Hveragerðis. Er þangað kom var tekið vel á móti okkur og farið um og völlurinn skoðaður. Að því loknu var okkur boðið í kaffi í klúbbskálanum. Er við sátum þar og sötruðum kaffið hnippir gamall maður í mig og segir"heyrðu vinur höfum við ekki sést áður?" ég virti hann fyrir mér og kom því ekki fyrir mig að svo væri. En gamli maðurinn var alveg viss um það og situr svo drjúga stund hugsi og segir svo "Heldurðu að það getir hafa verið á Litla Hrauni?" Þannig var það nú

26.06.2013 11:48

Fréttir 26. júní 2013


Aldrei þessu vant þá er smávindur og rigning en hitastigið er um 10 stig. Nú viðbrögð við leiknum "Haltur leiðir blindan" eru byrjuð. Guðni píp hringdi í gær og þakkaði fyrir tölvupóst er hann fékk um mótið og sagði að aldrei þessu vant hefðu golfarar munað eftir sér, og væri hann alvarlega að hugsa um að vera með. Lítið er hægt að slá í augnablikinu en borinn var áburður á allar flatir í gær ásamt því að gata þær og svo voru teigar slegnir. Finni Nilla hefur ekkert sést í dag enda ekki komið hádegi

25.06.2013 14:19

Síðkjólamót Vestarr 2013

Síðkjólamót Vestarr kvenna 28.júní 2012

 

Þá er komið að því að fara að dusta rykið af síðkjólnum

 eða klára síðasta sauminn!

 

Leikfyrirkomulag: Texas scramble

Vanar-óvanar: Raðað í lið á staðnum.

Mæting í skála kl.16:30. Boðið verður upp á skvísulegan fordrykk.

 

Ræst verður út frá öllum teigum kl. 17:00.

Eftir mót verður boðið upp á dömulegar veitingar.

Verð kr. 3.000.-

 

Veitt verða verðlaun fyrir m.a.:

Fæst högg

Glæsilegustu konuna

Óvissuverðlaun

                      

Hvetjum allar golfskvísur til að taka með sér aðrar skvísur. Lofum skemmtilegum golfhring og eigum  saman ljúfa stund eftir hann. Skráning á golf.is eða hjá Bryndísi í síma: 8621355 eða á netfang: [email protected]

Kveðja,   

kvennanefndin

25.06.2013 09:27

FRÉTTIR 25. júní 2013


Hér er svo til logn og hið besta veður. Eins og ég gat um í gær þá ætlum við að fara af stað með leikinn "Haltur leiðir blindan" sem er mjög skemmtilegur og gefandi. Hér er svo fyrirkomulag leiksins:

Haltur leiðir blindan

Nú er þessi skemmtilegi leikur að fara af stað en hann gengur út á það að vanur og óvanur fara saman í golf. Sá vani er skuldbundinn til að sjá um það að sá óvani fari 3 sinnum í golf, og þarf að sjá til þess að hann mæti. Og ef með þarf þá bara ná í hann og koma honum á svæðið. Ekki þarf að spila heilan hring, það nægir að fara á æfingasvæðið eða bara nokkrar holur. Málið er einfalt, það er að vanur spilari dragi einhvern með sér í golf og þarf sá ekki að vera í klúbbnum. Til að velja hverjir lenda saman þá drögum við saman pörin eftir skráningu. Fyrirhugað er að hefja þennan leik mánudaginn 1. júli. Skráning er hjá eftirtöldum: Á facebook-síðu klúbbsins Golfklúbburinn Vestarr og einnig á facebook-síðuna Guðmundur Gíslason. Einnig getur fólk hringt í Gumma Gísla 662-2430. Skráningu lýkur sunnudaginn 30. júní.
Í þessum leik er ekkert þátttökugjald, heldur er verið að reyna að fá fólk sem ekki er að spila golf reglulega til að fara að byrja. Í lokin verður mót með Texasscramble fyrirkomulaginu og smá hullumhæ á eftir.
 Vonumst til að sem flestir verði með. Þið sem eruð í klúbbnum deilið þessu til sem flestra og hvetjið þá til að vera með.

24.06.2013 15:27

FRÉTTIR 24. júní 2013


Það er eins og venjulega hér, alltaf sama blíðan. Verið var að slá brautir og flatir. Síðast sagði ég frá því að ég sæti uppi með hund frá Finna Nilla. Það gekk nú ágætlega að passa kvikindið, en eitt kvöldið hélt ég að ég hefði tapað því út. En eftir mikla leit þá fann ég dýrið sofandi í svörtu skjalatöskunni minni, sem ég nota við getraunadæmið á veturna. Er ég viss um að Finni hefur lagt ríka áherslu á við dýrið að gera þetta, að sofa innan um getraunaseðla svo hann gæti haft það sem makker í vetur. Á morgun mun ég segja frá leik sem er að fara af stað hjá okkur og heitir "Haltur leiðir blindan" en til að forðast allan misskilning þá felst leikurinn ekki í því að Gummi Reynis leiði Gumma Gísla um golfvöllinn. En hvað um það meira á morgun og fylgist því með. Æ meðan ég man, Finni Nilla fór sinn rúnt hér framhjá áðan, og kom ekki við.

21.06.2013 15:21

Jónsmessumót

Af óviðráðanlegum orsökum verðum við að fella niður Jónsmessumótið á morgun.


Mótanefnd

21.06.2013 15:16

FRÉTTIR 21. júní 2013


Hér er bongóblíða eins og alla aðra daga. Búið er að slá allar brautir og nú er verið á fullu við að vökva flatirnar. Þá hefur verið hugað að trjánum á vellinum og snyrt í kringum þau. Finni Nilla hefur ekki verið á rúntinum hér, enda staddur á ættarmóti á Siglufirði. Hann náði sér vel niðri á mér vegna sífelldra skrifa um heimsóknir hans til einhvers kvenmanns fram í sveit. Því hann fékk mig til að passa hundinn sinn á meðan hann færi norður. Og nú sit ég uppi með hundkvikindið í nokkra daga.

21.06.2013 08:23

FRÉTTIR 21. júní 2013

Takið eftir
Í kvöld föstudaginn 21. júní 2013 er 1. teigur lokaður frá kl. 20-21 vegna móts er byrjar þá. Þetta gæti tekið skemmri tíma en við skulum miða við þennan tíma.

18.06.2013 13:10

Snæfellsnes mótaröðin

Sælir félagar

Nú er komið að 3 mótinu í Snæfellsnes mótaröðinni og er komið að Mostramönnum að halda mótið

Góð þátttaka hefur verið á þeim 2 mótum sem eru búinn og því um að gera að fjölmenna á Víkurvöll í Stykkishólmi og taka þátt í skemmtilegu móti.


Veitt eru verðlaun fyrir hvert mót fyrir sig og einnig eru verðlaun fyrir bestan árangur samanlagt í 3 mótum af 4.


17.06.2013 18:23

Bikarkeppni Vestarr 2013

Nú er að koma í ljós hvernig 1 umferð spilast.

Til að fá niðurstöðu í 8 manna úrslit þurfum við bráðabana og eru það Svanur og Bent annarsvegar og Kristín og Edvarð hinsvegar. En annar lítur þetta svona út.

8 manna úrslit.

Guðni Hallgríms / Svanur eða Bent.

Ásgeir Ragnarsson/ Gunnar Ragnarsson

Steinar Alfreðsson / Dagbjartur Harðarson

Garðar Svansson / Kolbrún Haraldsdóttir

og þeir sem töpuðu

Unnur Birna / Edvarð eða Kristín

Jófríður Friðgeirsdóttir / Freydís Bjarnadóttir

Bergur Dagbjartsson / Hermann Geir Þórsson

Þór Geirsson / Bryndís Theódórsdóttir


Leik skal lokið fyrir 9 júlí.


14.06.2013 15:14

Fréttir 14. júní 2013


Eitthvað virðist þokan sem skall á í gærkvöldi vera að þynnast og hitastigið er komið í 13 gráður. Núna rétt áðan lauk keppni þeirra Gæja Svans og Tóta í Bikarkeppninni með sigri Gæja 2-1. Þá er Bent búin
n að týna sveiflunni einu sinni enn, en sem betur fer er hann með ungan gutta með sér sem aðstoðar hann við að finna hana aftur. Verið er að slá brautir og snyrta röff ásamt því að mála girðingarstaura. Mikla athygli mína hefur vakið hvað kvenfólkið sem býr í framsveitinni keyrir hratt hér um. Þó keyrar þær hraðar er þær eru á leiðinni að heiman, hvað sem veldur. Finni Nilla vinur okkar er byrjaður aftur að keyra framhjá án þess að koma við, en hann hefur ekki sést síðan við ályktuðum að hann væri að heimsækja einhvern kvenmann fram í sveit.

12.06.2013 15:17

Fréttir 12. júní 2013

Halló, sælt veri fólkið! Nú er verið að slá flatirnar og brautirnar en búið er að slá röffið. Hitastigið er aftur komið í 15 stig og hægur andvari, alveg tilvalið veður til að bregða sér á völlinn og spila golf. Aðkoman að vellinum batnar og batnar, nú er búið að mála hliðin inn á völlinn og líta þau bara vel út. Búið er að setja upp 4 öryggismyndavélar þannig að við erum alltaf í mynd (má kannski selja þetta sem raunveruleikaþátt í sjónvarpið). Búið er að gera við og standsetja litlu gulu sláttuvélina og sláttuorfið þannig að öll sláttutæki eru í góðu lagi. Ég fékk ábendingu um það í morgun að bönker héti glompa upp á íslensku, og skal ég reyna að muna það í framtíðinni. Bent lét sjá sig í dag en við vorum farnir að hafa áhyggjur af honum því hann sást ekkert í gær. Læt þetta duga í dag meira á morgun

11.06.2013 17:43

Fréttir 11. júní 2013

Þá er enn einn dýrðardagurinn langt kominn og alltaf batnar völlurinn. Í dag var unnið við að laga flatir og bönkera ásamt því að gata og sanda púttvöllinn. Þá var byrjað á því að mála girðingastaurana kringum völlinn og hin nýju hlið sem komin eru upp , bæði inná völlinn og svo æfingasvæðið. Einnig var haldið áfram að hlúa að trjáplöntunum á vellinum. Hitastigið í dag fór í 16 stig og var ekki amalegt með smá golu. Vélarnar eru í stöðugu viðhaldi svo sláttur verði sem bestur. Vonumst til að sjá ykkur sem flest koma og spila á vellinum.

Vafraðu um

Flettingar í dag: 440
Gestir í dag: 160
Flettingar í gær: 462
Gestir í gær: 175
Samtals flettingar: 2112839
Samtals gestir: 270374
Tölur uppfærðar: 1.12.2021 11:17:29

Tenglar